mánudagur, 30. desember 2013

Handavinna á mánudegi

Þegar ég byrjaði að blogga ákvað ég að einu sinni í viku yrði handavinnublogg. Ég hef því miður ekki staðið við það enn nú verður breyting á. Þar sem að ég hef tíma í þetta núna þá verða handavinnublogg á mánudögum, allavega þangað til annað kemur í ljós :)

Þetta verður örugglega bara svona það sem ég hef verið að dunda þá vikuna enn kannski kemur stundum eitthvað gáfulegra líka. Ég ætla allavega að setja hérna inn það sem ég er með í gangi, í von um að ég muni þá kannski eftir því að taka myndir af því sem ég geri og klári kannski meira í staðin fyrir að byrja bara á nýju! Enn það er sennilega borin von...

Allavega, ég er almennt frekar frosin á tánum í vinnunni og reyndar oft hérna heima líka, enn aðallega í vinnunni. Og þar sem að ég get ekki með nokkru móti verið í inniskóm og vill eiginlega helst alltaf vera berfætt datt mér í hug að prjóna og þæfa inniskó. Það gekk líka svona snilldarvel og ég er ótrúlega sátt með þá og ætla með þá í vinnuna þegar ég fer þangað næst :) Ætli ég endi ekki á að gera bara aðra til að hafa hérna heima, þarf líka sennilega að prjóna svona handa Hafþóri þar sem hann vill alltaf fara í mína þegar hann sér mig í þeim.
Hér eru skórnir tilbúnir

Ég fann á netinu uppskrift sem ég fór nokkurn vegin eftir, og tel nú í góðu lagi að setja hana hérna inn þar sem hún er af bland.is, fyrir utan það að hún Steina vinkona mín hefði alveg pottþétt ekkert á móti því ;)

þæfðir fullorðins inniskór. 


prjónar nr 6 og fritidsgarn eða lopi. 

fitjar upp 36 lykkjur, prjónar 18-20 cm. 
tengir í hring og prjónar 6-8 cm í viðbót. 

úrtaka: 
úrtökuumferð:2l, 2saman til skiptis út umferðina 
ein slétt umferð. 
úrtökuumferð: 1sl, 2 saman til skiptis út umferðina. 
slétt umferð 
úrtaökuumferð. 2 saman út umferðina 

slíta frá og draga bandið ígegnum lykkjurnar sem eftir eru. 
saumasaman hælinn 

gera annan eins 

þvo í þvotttavél með öðrum þvotti á 40,


Fyrir þæfingu
Ég fór ekki alveg eftir uppskriftinni, er með smáan fót og notaði tvöfaldan plötulopa og prjóna númer 5. Og gerði minnsta cm fjöldann (18 og 6) og þetta passar mjög vel, mættu allavega ekki vera stærri þá þyrfti ég alltaf að vera að laga þá á fætinum. Svo væri kannski sniðugt að setja teygjutvinna í opið svo þeir lokist aðeins betur, geri það ef þeir fara að detta af í tíma og ótíma.




Fyrir þæfingu

Þegar ég var búin að þvo skóna leyst mér nú ekki alveg á blikuna, ég hélt að þeir yrðu bara passlegir á Snjólf, mér fannst þeir svo litlir. Enn ég skellti mér í þá blauta í smástund, örugglega innan við 10 mínútúr og þá löguðu þeir sig alveg að fætinum mínum og svo lét ég þá bara standa og þorna :)

Fyrir þæfingu
Eftir þæfingu
Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan löguðu þeir sig algerlega að fætinum, og eiginlega frekar kjánalegt ef maður fer í krumma, þá stendur plássið fyrir stóru tánna mjög skemmtilega útí loftið vitlausu megin ;)

Enn ég er búin að sjá fyrir mér allskonar útfærslur af þessu! Langar að gera eyru og augu og geta gert músaskó eða eitthvað í þá áttina og svo langar mig pínu að prófa að prjóna nokkrar lykkjur lengra áður enn tekið er alveg saman og gera svona álfaskó með bjöllu (sé fyrir mér Joey í álfabúningnum), enn ég geri mér samt alveg grein fyrir því að notagildið á þeim skóm yrði nú sennilega ekki mjög mikið... enn án efa hefðu börnin á leikskólanum mjög gaman af þeim inniskóm! ;)


Fyrir utan þetta hef ég aðeins verið að vesenast í vettlingaprjóni, enn ég þarf að útfæra þá aðeins betur áður enn ég set inn uppskrift. Er búin að prjóna eitt par með þumaltungu úr smart garni enn mér finnst þumallinn ekki alveg vera að gera sig.


Ég er eins og litlu börnin og týni alltaf vettlingunum mínum þannig að vettlingar með þumaltungu eru mjög sniðugir, þá eru báðir vettlingarnir eins og því hægt að prjóna marga í sama lit (já eða sitthvorum ef maður er crazy eins og ég) og þá gerir ekkert til þó þeir týni tölunni :) Það er mjög algengt að á vorin eigi ég annað hvort bara hægri eða bara vinstri vettlinga eftir þannig að nú ætla ég að mastera þumaltunguvettlinga bæði fyrir
mig og Hafþór Svan :)


Á myndunum hér fyrir ofan sést þetta vettlingapar og svo einn hálfprjónaður vettlingur sem er í vinnslu. Á neðri myndinni sést vel hversu bæklaður þumallinn er enn þarna er aukið út fyrir þumlinum eftir fyrstu og fyrir seinustu lykkju í umferðinni. Í útfærslunni sem er í vinnslu núna er ég að auka út fyrir þumli alltaf á sama stað, semsagt fyrst eftir fyrstu og fyrir seinustu lykkju og í næstu útaukningarumferð eftir 2 lykkjur og fryir 2 seinustu og þar framm eftir götunum. Mér sýnist þetta ætla að koma betur út enn það kemur ekki í ljós fyrr enn ég prjóna þumalinn :)



Þumalinn virðist nú samt ekki vera alveg jafn bæklaður þegar ég er komin í vettlinginn, enn samt nóg til að það trufli mig. Þannig að verkefni næstu viku er að halda áfram í þessum vettlingum og finna hina fullkomnu vettlingauppskrift (er meðvituð um að það mun aldrei gerast!) ;)


Þangað til næst :) 







sunnudagur, 29. desember 2013

Jólafrí

Jæjja, rétt rúm vika frá seinustu skrifum. Enn mér finnst samt svo miklu lengra síðan, búið að vera nóg að gera á þessum bæ.
Á sunnudaginn fyrir viku síðan kom í ljós að ég er með lungnabólgu og fékk lyf við henni, enn þrátt fyrir þann lyfjakúr virðist hún ekkert vera á förum. Hefur auðgað mitt jólafrí mikið!

Á þorláksmessu fórum við í skötuveislu til Steinunnar frænku og var veislan heldur minni í sniðum heldur enn hún hefur verið undanfarin ár. Við hittumst bara fjölskyldan og áttum notarlega stund saman. Ekki það að "bara" fjölskyldan telur nú ansi marga ;) enn því miður varð myndavélin eftir heima.

Á aðfangadag vorum við litla fjölskyldan hér heima og fórum svo í heimsókn til Steinunnar frænku um kvöldið ásamt pabba og mömmu og co. Hafþór Svanur vildi engan vegin borða kvöldmatinn, þessa líka dýrindis fylltu kalkúnabringu og meðlæti og borðaði því abt-mjólk í jólamatinn með bestu lyft.

Það er nú eiginlega ekki hægt að segja að hann hafi verið mjög spenntur fyrir pökkunum, skildi eiginlega ekkert í þessu bara og var kominn inní rúm klukkan hálf 8. Enn eins og oft áður svaf hann nú ekki nema einn og hálfan tíma þar og var þá glaðvaknaður, þannig að við drifum okkur í heimsókn :)



Núna er nýja dótið orðið ansi spennandi, enn þetta tók smá tíma :) Á aðfangadag var hann mest spenntur fyrir fötunum sem hann fékk, enda mikill áhugamaður um að fá að klæða sig sjálfur og svo hafði hann mjög gaman af plas matarstelli sem hann fékk frá Öbbu frænku sinni.

Frá okkur foreldrunum fékk hann bílabraut enn við höfum greinilega verið of upptekin að leika með honum til þess að taka myndir!



Við erum búin að eiga mjög notarlega hátíð, fengum pabba og mömmu í kaffi á jóladag og þá gúffaði Hafþór Svanur í sig brúntertu sem Gulla langamma bakaði handa okkur, fannst hún sko ekkert smá góð! Svo erum við líka búin að kíkja útá Hafranes til tengdapabba og þar skemmti Hafþór Svanur sér vel í myndatöku með Elvari frænda sínum. Og fékk að sjálfsögðu allskonar gúmmelaði hjá Frissa afa, til dæmis hangikjöt og ís.


Veður og færð hefur ekki alveg verið eftir okkar skapi og því er ekki enn búið að halda jólaboðið í fjölskyldunni hans Kobba, enn við bíðum spennt eftir því. Ætli þetta endi ekki sem nýársboð bara :)
Nú er komið í ljós að Kobbi verður sennilega í fríi um áramótin, og það er nú aldeilis búið að rætast úr þessu jólafríi. Hann átti að vera að vinna bæði um jól og áramót enn þeir náðu að klára um hádegi á aðfangadag þannig að hann gat verið heima hjá okkur um jólin. Við erum ekkert búin að ákveða hvar við ætlum að vera eða hvernig við ætlum að haga áramótunum. Enn eitt er víst, við förum á brennu á Fáskrúðsfirði. Það hefur verið ákveðið að flýta brennunni hér á Reyðarfirði til klukkan 5 sem henntar ekki svona vanaföstum mönnum eins og Kobba ;) Þannig að brenna á Fásk skal það vera :)

Við erum að sjálfsögðu búin að snúa sólarhringnum í marga hringi á þessum bæ og ég ætla að enda þessa færslu á myndum sem voru teknar klukkan rúmlega 1 í gærkvöldi.




laugardagur, 21. desember 2013

Smá pæling...

Þetta er nánast dagleg pæling, þar sem að sonur minn sofnar alltaf við Dýrin í Hálsaskógi, og flest kvöld eru þau spiluð oftar enn einu sinni.



Ætli einhver hafi prófað að baka eftir piparkökuuppskriftinni?? 

fimmtudagur, 19. desember 2013

Jólaball og Sörubakstur




Í gær var jólaball í leikskólanum. Við Hafþór Svanur hefðum eiginlega ekki geta staðið okkur betur! Ég var komin með RISA stórt lykkjufall á sokkabuxurnar áður enn ég komst inn á jólaballið, og ég get sko sagt ykkur að það skánaði lítið við 8 tíma af jólaballi og leikskólastússi með krökkunum á Birkiholti, o nei! Hafþór Svanur aftur á móti var ekkert rosalega spenntur fyrir þessu, enn hann var svo heppinn að afi hans og pabbi voru þarna báðir þannig að hann hafði 3 fullorðna að snúast í kringum sig. Honum líkar það nú ekki illa!



Hann var þó eitthvað ólíkur sjálfum sér, enda toppaði hann daginn með því að æla yfir hádegismatarborðið á Greniholti! Já já, virkilega skemmtilegt svona. Þannig að hann fékk að fara heim til afa í kósý þangað til pabbi hans vaknaði, og fékk svo að vera heima hjá pabba sínum í dag á meðan ég fór að vinna :)

Hafþór Svanur var svo heppinn að fá slaufu í skóinn í gærmorgun, enda var hann ótrúlega fínn á jólaballinu, og ég get ekki sagt annað enn að ég hafi verið mjög fegin að hann var ekki lengur í þessum fötum þegar gusan kom!  Í dag fékk hann síðan fína fjólabláa og bleika snuddu, í von um að hann skili kannski þessari til hennar Telmu Sólar!





Enn við hjónaleysin höfum verið að vinna í sörugerð, og ég verð eiginlega að segja að annað hvort eru þær ekki eins og þær eiga að vera eða þá að við kunnum ekki gott að meta! Við erum allavega ekkert voðalega hrifin af þeim, enn við erum með rúmlega 50 sörur í frysti ef einhver þorir að koma og smakka ;) Annars held ég að amma sé á leiðinni um helgina og hún getur þá sagt mér hvort ég kunni ekki að baka, eða kunni bara ekki að meta þessar dýrindis kökur. Enn fallegar eru þær :)




Þar sem að bakstur seinustu daga hefur ekki alveg verið að gera sig er ég búin að skella í botna fyrir Bounty köku og þeir eru nú í ofninum, þetta var nú ekki hægt! Ég verð líka að gera eitthvað við þessar eggjahvítur, er alveg að falla á tíma með það samt enn get kannski bakað pínu meira á morgun. Það var "one of those day's" í vinnunni í dag þannig að ég nenni ekki meiru og ætla bara að setjast í sófann með prjónana.





Læt fylgja hérna neðst mjög lýsandi mynd af strákunum mínum :)


Þangað til næst :) 

þriðjudagur, 17. desember 2013

Lakkrístoppaklúður!

Það er ýmislegt sem mér hefur tekist að klúðra í eldhúsinu í gegnum árin, enda var ég nú ekki há í loftinu þegar ég var farin að skipta mér af í eldhúsinu heima. Ekki það að ég sé sérlega há í loftinu núna!
Ég var mjög dugleg að baka og elda, mömmu til mismikillar ánægju. Ég var nefnilega alveg jafn dugleg við að skilja allt eftir í drasli, hlaupa bara frá eldhúsinu sem leit oftast út eins og eftir hvirfilbyl þegar ég hafði dundað eitthvað þar. Ég náði þó að sannfæra systur mína um að ef ég eldaði eða bakaði þá ætti hún að ganga frá. Þar af leiðandi sá hún að mestu leyti um fráganginn... mikið vildi ég að ég næði að sannfæra manninn minn um það sama!



 Allavega, eitt af því sem ég hef ansi lengi bakað fyrir hver jól eru lakkrístoppar, Kobbi er mjög hrifin af þeim og líka krakkarnir þannig að mér finnst rosalega gaman að baka þá. Bakaði smá um daginn enn fór með eitthvað í saumaklúbb og hinir virðast hafa gufað upp! ;)
Þannig að ég ætlaði nú aldeilis að græja lakkrístoppa í kvöld, enda á ég nóg af eggjahvítum. Ég nota oftast uppskriftina sem er framaná lakkrískurlinu enn í einhverju hugsunarleysi setti ég þrjá DESILÍTRA af eggjahvítum enn ekki þrjár eggjahvítur. Einn dl af eggjahvítum er semsagt ca 3 eggjahvítur þannig að þarna var ég komin með 9 eggjahvítur án þess að fatta það. Útí þetta skellti ég 200 gr af sykri eins og stóð í uppskriftinni og lét þetta svo þeytast alveg heillengi. Þegar ég síðan stoppaði hrærivélina var ég vægast sagt undrandi hvað var mikið í henni, minnti nefnilega að uppskriftin væri ekki svona stór, enn ég pældi ekkert meira í því. Einnig fannst mér hræran alveg svakalega stíf, sá fyrir mér að þetta yrðu mjög flottir toppar! Þannig að ég skellti lakkrískurli og súkkulaði útí enn mér fannst það eiginlega bara vera dropi í hafið!

Eins og sjá má voru þeir mjög stífir! 
Þegar þarna var komið sögu fór ég aðeins að hugsa, ótrúlegt enn satt. Og áttaði mig þá á mistökunum. Enn þar sem að ég var búin að setja súkkulaðið útí var lítið í þessu að gera, ég smakkaði og þetta var bara eiginlega eins og venjulega þannig að ég lét slag standa og skellti meira súkkulaði útí. Græjaði þetta á plötu og inní ofn. Ég get nú ekki sagt að þeir hafi verið fallegir, enn þeir brögðuðust ekkert illa samt. Það sem aðallega háði þeim greyjunum var að tolla ekki saman og vera bara límdir við bökunarpappírinn. Þannig að ég skóf þá alla saman í ruslið og sökum mikillar fýlu í þeirra garð eru engar myndir af þeim. Enn svona án alls gríns þá gleymdi ég bara að taka mynd. Þannig að í kvöld er ég búin að afreka það að henda 9 eggjahvítum, 200 gr af sykri og að ég held 300 gr af súkkulaði og 300 gr af lakkrískurli! Það er nú bara nokkuð dagsverk skal ég segja ykkur!

Ég gat nú engan vegin hætt án þess að þessi bakstur hefði skilið eitthvað eftir sig, þannig að ég ákvað að græja botna fyrir sörur, sem verða síðan kláraðar síðar. Græjaði 60 stykki af litlum krúttlegum sörubotnum. Hef samt grun um að ég verði skömmuð á morgun. Kobbi er ekki sérlega hrifinn af svona munnbitakökum, enn mér finnst að smákökur eigi að vera litlar og krúttlegar :)
Kobbi verður kominn í frí á morgun eftir næturvaktatörn þannig að við getum vonandi sett kremið og jafn vel súkkulaðið á annað kvöld. Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út. Við höfum aldrei gert sörur áður.

Enn nú er sennilega best að koma sér í bólið, jólaball í leikskólanum á morgun og við hlökkum bara til. Vona nú að ég tolli í vinnunni það sem eftir er fram að jólum. Hefði sennilega átt að spara stóru orðin í gær þar sem ég byrjaði að æla í gærkvöldi og skemmti mér við það eitthvað fram eftir nóttu. Lagði þar af leiðandi ekki í að mæta til vinnu í morgun enn er svo búin að vera fín í dag. Og þá er maður auðvitað með nagandi samviskubit að hafa ekki mætt. Enn ég bæti það upp á morgun, held að ég sé ekkert minna spennt fyrir þessu jólaballi heldur en krakkarnir :)

Þangað til næst.

mánudagur, 16. desember 2013

Mangó og hnetu lax

Þessa dagana er Kobbi á næturvöktum, þá finnst mér ótrúlega notarlegt að elda eitthvað skemmtilegt í kvöldmat. Það er nefnilega ekki alltaf mikið um það þegar Kobbi er á dagvöktum, Hafþór Svanur þarf alveg sinn tíma eftir leikskóla og ég nenni heldur ekkert að stressa mig á þessu, við fáum öll heitan mat í hádeginu og því er oft bara eitthvað létt og þægilegt hjá okkur, það er að segja þegar mig langar ekki að elda :)
Í dag ákvað ég að prófa lax með mango chutney og pistasíuhnetum. Ég var mjög spennt fyrir þessu og þetta lukkaðist bara nokkuð vel. Við eldum alltaf reglulega lax, oft kaupum við marineraðan lax sem okkur finnst mjög góður eða ég krydda með sítrónupipar eða marinera með BBQ, allt eitthvað sem okkur finnst mjög gott enn alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.


Hugmyndin er komin héðan http://ljufmeti.com/2012/06/28/matur-hja-mommu/ enn mér sýnist að ég hafi notað mun meira af chutney heldur enn hún, enda var það full mikið af því góða! Ég kláraði bara krukkuna því ég vissi fyrir víst að annars myndi botnfylli af mango chutney daga uppi inní ísskáp. Ég hef líka sennilega notað eitthvað aðra tegund... tók allavega mynd af því með svona til að hafa einhverja hugmynd um hvað ég ætti að kaupa ef ég ætla að gera svona aftur :)



Þetta var bara mjög gott og við gerum örugglega svona aftur, alveg spurning samt að prófa eitthvað annað chutney, það er ansi sterkt eftirbragð af þessu (eða að ég hafi misst mig í að pipra, sem ég held samt ekki). Hafþór Svanur kunni allavega ekkert sérlega vel að meta þetta enn ég þekki mitt heimafólk og græjaði því kartöflugratín. Allt sem inniheldur nóg af osti rennur mjög ljúflega niður hjá litla manninum :)





Ég elska kartöflugratín enn hef nú ekki eldað það oft undanfarið. Enn ég er löngu hætt að gera svona gratín sem er sett hrátt í ofnin, mamma gerði alltaf svoleiðis... aðallega rjómi og kartöflur enn ég nenni því ekki fyrir mitt litla líf. Ég græja alltaf í pottinum og skelli svo bara aðeins inní ofn til að brúna ostinn ofaná. Þetta er eitt af því sem lærðist þegar ég bjó í Reykjavík og var með mjög litla eldavél og ofn, eða kannski öllu heldur lítið eldhús svona í heildina. Enn það var allavega ekki hægt að elda kjöt í ofninum og vera með gratín líka, þannig að ég fór að gera þetta svona. Þá var passlegt að skella gratíninu inní ofn þegar kjötið var tekið út. Þá var kjötið búið að jafna sig á svipuðum tíma og gratínið var tilbúið :)

Þetta er innihaldið í gratíninu, sæt kartafla, bökunarkartafla, hálft box af sveppasmurosti, hálfur laukur, einn mexico ostur og 6 sneiðar af beikoni. Oftast er svona gratín samt tiltekt í ísskápnum, klárað uppúr öllum dollum af smurosti og eiginlega bara sett það sem er til. Enn það er líka stundum ágætt að vita hvað er í þessu hjá manni! Ég byrja á að skella pínu mjólk í pott og svo fer þetta bara útí eitt af öðru. Byrja á kartöflum og lauk, síðan beikoni, sem Kobba finnst algert möst, og þá ostunum. Þetta fær að malla allt saman í smá tíma á eldavélinni og er svo hennt inní ofn í ca 15-20 mín :) Einfaldasta og þægilegasta gratín ever!



 Ég ætlaði að vera svo ótrúlega dugleg í kvöld, græja pakka í póst og baka og dunda mér enn svo nenni ég ekki neinu. Ætli ég græji nú samt ekki pakkana og fari svo bara snemma að sofa. Vona að harðstjórinn á heimilinu leyfi það!



Hér má svo sjá snuddukræki aðstoðarmann. Hann stal þessar líka fínu snuddu frá Telmu Sól vinkonu sinni og vill helst ekki vera með neina aðra þessa dagana!





Þangað til næst :)


Þriðji í aðventu

Tíminn líður ansi hratt þessa dagana, enn eitt sunnudagskvöldið gengið í garð og ný vinnuvika að hefjast í fyrramálið. Ég var einmitt að fatta það í þessum skrifuðu orðum að það eru bara 6 vinnudagar til jóla! Hvað er að frétta með það, ég get svo svarið að það var október í gær! Enn stefnan er allavega tekin á að mæta alla þessa 6 daga og vonandi mun það ganga eftir! Þetta er að verða nokkuð gott af þessar hálsbólgu enn ég er ennþá hálf raddlaus, það verða komnar tvær vikur af þessu núna á miðvikudaginn þannig að mér finnst þetta bara alveg orðið nóg sko!

15.des, 9 dagar í jól... það er allavega eins gott að fara að kaupa restina af jólagjöfunum og koma þeim fáu sem þarf að senda í póst! Við erum nú reyndar sem betur fer langt komin með jólagjafirnar, enn það eru samt nokkrar eftir. Enn á morgun segir sá lati og ég nenni þessu allavega ekki núna ;)

Hafþór Svanur hefur verið nokkuð áhugasamur um þetta jólasveina vesen allt saman og finnst frekar fyndið að finna ótrúlegustu hluti í glugganum á morgnana (eða rétt fyrir kvöldmat eins og í dag...) Hingað til hefur hann aðallega fengið bíla, enn vettlingar og mandarínur hafa líka fundist í skónum.

Í gær fórum við á jólahlaðborð með samstarfsmönnum Kobba hjá Eimskip, það var mjög gaman og við ótrúlega heppin að hafa Steinunni Dagmar og Særúnu Birtu til að passa fyrir okkur :) Litli maur var sem betur fer góður við þær og svo buðu þær honum með sér í sunnudagaskólann í morgun, þar var nú gaman að púkast og hlaupa um enda borin von að stubburinn færi að sitja kyrr enn þetta gekk þó allt mun betur enn ég átti von á (enda hef ég augljóslega enga trú á barninu).

Á föstudagskvöldið kom pabbi heim og mikið var Hafþór Svanur glaður að hitta afa sinn, hann var nú samt alveg eins og kleina og vissi ekkert hvernig hann átti að vera, enn það lagaðist nú fljótt. Hafþór var eiginlega bara hálf feiminn enda ansi langt síðan þeir hittust, svona allavega miðað við að vera oftast að hittast daglega allavega. Enn hann er nú búinn að heimsækja afa og ömmu bæði í gær og í dag og leggja sig með afa báða dagana, sem er best í heimi. Síðan var honum skellt í bað í vaskinum hjá afa áðan, það fannst honum alveg virkilega skrítið! Enda skil ég hann vel, mér finnst það líka skrítið, svona sérstaklega með tilliti til þess að það er baðkar í fullri stærð hjá afa hans og ömmu!

Við erum búin að hafa það af að baka bæði lakkrístoppa og piparkökur, aðrar smákökur hafa ekki verið bakaðar á þessu heimili enn það stendur þó vonandi til bóta. Ég þarf allavega að baka helling af lakkrístoppum í viðbót þar sem ég keypti mér 1 líter af eggjahvítum, sem eru ca 30 eggjahvítur. Ég hef alltaf endað með fullt af rauðum sem ég nota ekki neitt þannig að ég prófaði þetta í fyrra. Kom mikklu betur út fyrir okkur. Flaskan var opnuð á fimmtudaginn og má bara vera opin í viku þannig að nú þarf all verulega að fara að spíta í lófana, já eða frysta ;)


Í kvöld kveiktum við síðan á 3 kertinu á aðventukransinum. Hafþór Svanur er mjög áhugasamur um kerti og bendir mikið á kransinn og segir "vááá". Hér til vinstri eru hann og Steinunn Dagmar að skoða kertin á kransinum. Enn örstuttu seinna blés stubburinn á eitt kertið og var síðan alveg að hugsa um að smakka á því!






















Þangað til næst!

miðvikudagur, 11. desember 2013

Jólasveinar

Í nótt kemur víst fyrsti jólasveinninn og á þessu heimi fór skórinn útí glugga. Þrátt fyrir engan skilning hjá blessuðu barninu á þessu öllu saman! 




Hann var stórlega hneykslaður á mömmu sinni þegar ég þaut með hann framm í forstofu að sækja skó rétt áður enn hann átti að fara að sofa, og ekki nóg með það þá fékk hann ekki heldur að klæða sig í skóinn heldur var honum plantað útí glugga! Hafþór Svanur var nú ekki sérlega hrifinn af þessu uppátæki, spurning hvort hann taki betur í það í fyrramálið :) 




Herra hard core




þriðjudagur, 10. desember 2013

Starfsmaður ársins

Rétt í þessu var Kobbi að skutla Hafþóri Svani á leikskólann... 

Þessi dagur er númer 7 af virkum dögum síðan ég byrjaði að vinna á leikskólanum og þar af hef ég mætt 4! 


Ætla að halda partý í dag enda ekki annað hægt með þessum hóstaköstum og raddleysi! Boðsgestir eru engifer, panodil hot og strepsils.
Geri síðan fastlega ráð fyrir að fá verðlan sem starfsmaður ársins á Lyngholti mjög bráðlega! 

*bíð spennt*



mánudagur, 9. desember 2013

Morgunferskleiki!

Nú er aftur kominn mánudagur, mér finnst seinasti mánudagur eiginlega bara hafa verið í gær!
9.desember og rétt rúmar tvær vikur í jólin, og aðeins ein sort af smákökum klár á þessu heimili.... úbbs!

Enn jæjja, fimmtudagurinn og föstudagurinn í seinustu viku fóru í veikindi, alltaf skemmtilegt ;)


Enn á laugardaginn var nóg að gera, á laugardögum er íþróttaskóli og þar er alltaf gaman og svo fórum við útí sveit í afmæli hjá afa Frissa og hittum alveg fullt af fólki. Lilla frænka og Ólöf komu austur í smá skrepp og Bogga mætti með sitt fólk og svo hittum við auðvitað Fannar Daða sem er alltaf gaman. Enn því miður gleymdist myndavélin þannig að við eigum engar myndir :(
Ég bakaði samt alveg svakalega súkkulaðiköku fyrir þetta tilefni og tók með mér (gleymdi að sjálfsögðu að mynda hana líka) enn hún mynnti eiginlega á kökuna í myndinni Matthildi ;)
Bakaði semsagt köku sem heitir "Ekta súkkulaðiterta" í Nóa Síríus bæklingnum fyrir þetta árið. Og það má eiginlega með sanni segja að hún hafi verið ekta, allavega ansi mikið súkkulaði bragð og eiginlega aðeins of fullorðins fyrir mig! Verður gaman að föndra aðeins meira með þessa, held ég prófi að nota ekki alveg svona mörg % súkkulaði næst og sjái hvernig það komi út. Spurning hvort það sé ekki kjörið tækifæri fyrir svona tilraunir næstu helgi þegar pabbi, súkkulaðifýkill kemur heim ;)



Ég veit samt eiginlega ekki alveg hvað ég er að furða mig á því að Hafþór Svanur eigi eitthvað erfitt með svefn, og það er ekkert að lagast þrátt fyrir mikla bjartsýni fyrir stuttu síðan. Enn stubburinn minn var með bras við mömmu sína í gær og ætli klukkan hafi ekki verið í kringum hálf 2 þegar við sofnuðum. Fyrir rúmum klukkutíma rumskaði maurinn svo og þá gat ég auðvitað ekki með nokkru móti sofnað aftur. Þannig að klukkan er rétt um 7 á mánudagsmorgni og ég er búin að fara í sturtu, græja leikskóladótið okkar, elda hafragraut handa strákunum mínum og sitthvað fleira, og Hafþór Svanur er ennþá sofandi... allt eðlilegt við það!
Borða tortillu alveg sjálfur

Spurning hvort ég þurfi ekki að biðja um að fá að vera á Asparholti í dag til að geta lagt mig með litlu krökkunum ;) Tými því samt ekki, er ekki búin að  hitta krakkana á Birkiholti síðan á miðvikudagsmorgun, og það var bara í mýflugumynd! Þau eiga örugglega eftir að skemmta sér konunglega yfir röddinni minni, eða öllu heldur raddleysi. Það er eiginlega eins og ég sé í mútum!







Þangað til næst!

Við Mikki höfðum það gott um daginn

miðvikudagur, 4. desember 2013

Fyrsti í aðventu og fyrsti í vinnu

Góða kvöldið!

Hér hefur nú mikið gengið á seinustu daga. Við komumst ekki í sveitina á laugardaginn þar sem Hafþór Svanur vaknaði með hita, og fórum ekki heldur að mála piparkökur með leikskólanum á sunnudagsmorgun, enn við kveiktum að sjálfsögðu á aðventukransinum okkar og stálumst til að kíkja pínu þegar var kveikt á jólatrénu niðrí bæ.





Laugardagurinn fór því í rólegheit hérna heima, settum upp jólaljós og svona og Hafþór Svanur hjálpaði að sjálfsögðu mömmu sinni að þvo gluggana, það er aðal sportið þessa dagana að hjálpa mér við allt mögulegt! Setja í þvottavélina, hengja upp þvott, taka þvott af snúrunni og taka úr uppþvottavélinni. Helsti gallinn við þetta er að Svansi minn vill helst hengja upp þurran þvott og taka niður blautan enn það er annað mál!










Á mánudaginn var svo fyrsti dagurinn minn í leikskólanum og fyrsti dagurinn hans Hafþórs Svans að vera til  fjögur. Þetta hefur gengið eins og í sögu enn Hafþór Svanur varð lasinn í gær og var heima með pabba sínum í dag, og ætli ég verði ekki heima með hann á morgun. Þegar við komum heim úr leikskólanum á mánudaginn drifum við okkur að baka piparkökur, Snjólfur og Steinunn Dagmar komu til okkar og fengi að vera með og svo var Kobbi heima líka :)


Snjólfur var afar einbeittur við þetta enn Hafþór Svanur hafði mun meiri áhuga á að borða deigið... enda tolldi það mjög illa saman og ég held að við höfum borðað álíka mikið deig og var bakað. Enn það skiptir  ekki máli, við bökuðum piparkökur!










Á mánudagskvöldinu fannst mér mig sárlega vannta einhverja tuðru til að  dröslast með í og úr vinnu.Þarf oft að taka með mér föt  og svona fyrir Hafþór Svan, handavinnudótið mitt og svo fer ég mun oftar með bleiur í leikskólann heldur enn aðrir þar sem ég er að nota taubleiur, og tek þá líka óhreinar með mér í lok dags. :) Ég er nýbúin að skemma stóra veskið mitt og vantaði einhverja stóra og góðatösku, þannig að þá var ekkert annað í stöðunni heldur enn að sækja saumavélina.


Ég var svo heppin að  eiga eldgamlar gallabuxur einhversstaðar inní skáp (segið  svo að sé ekki gott að safna drasli!) og breytti þeim í tösku. Alls ekkert listaverk hér á ferð enn vel nýtileg til síns brúks. Ég ætlaði mér nú samtað fóðra töskuna og hafaþá fóðrið þannig að ég geti tekið það úr og skellt þessu bara í vél þegar þörf er á. Eeeenn fyrst ég er byrjuð að nota tuðruna þá efast ég um að það verði nokkuð úr því!
Eins og sjá má er taskan alger hlúnkur, þarna er ég með öll útifötin hans Hafþórs Svans fyrir leikskólann, sotteríis dót fyrir mig og nokkurra daga bleiuskammt :) Bara snilld!

Það verður eiginlega bara að segjast eins og er að ég er mjög ánægð í nýju vinnunni og finnst þetta bara spennandi :) Verður ennþá betra þegar ég verð komin almennilega í rútínu með þetta, enn það er allt að koma.





Nú ætla ég að fara að drífa mig í háttinn og hætta þessu endalausa bulli!

Ætla að láta fylgja mynd af aðventukransinum mínum sem ég er vandræðalega ánægð með og heimatilbúna aðventuljósinu mínu (á samt eftir að bæta einni krukku á hvorn enda til að fullkomna þetta, vantar bara meira glimmer).



















Góða nótt :)