þriðjudagur, 17. desember 2013

Lakkrístoppaklúður!

Það er ýmislegt sem mér hefur tekist að klúðra í eldhúsinu í gegnum árin, enda var ég nú ekki há í loftinu þegar ég var farin að skipta mér af í eldhúsinu heima. Ekki það að ég sé sérlega há í loftinu núna!
Ég var mjög dugleg að baka og elda, mömmu til mismikillar ánægju. Ég var nefnilega alveg jafn dugleg við að skilja allt eftir í drasli, hlaupa bara frá eldhúsinu sem leit oftast út eins og eftir hvirfilbyl þegar ég hafði dundað eitthvað þar. Ég náði þó að sannfæra systur mína um að ef ég eldaði eða bakaði þá ætti hún að ganga frá. Þar af leiðandi sá hún að mestu leyti um fráganginn... mikið vildi ég að ég næði að sannfæra manninn minn um það sama!



 Allavega, eitt af því sem ég hef ansi lengi bakað fyrir hver jól eru lakkrístoppar, Kobbi er mjög hrifin af þeim og líka krakkarnir þannig að mér finnst rosalega gaman að baka þá. Bakaði smá um daginn enn fór með eitthvað í saumaklúbb og hinir virðast hafa gufað upp! ;)
Þannig að ég ætlaði nú aldeilis að græja lakkrístoppa í kvöld, enda á ég nóg af eggjahvítum. Ég nota oftast uppskriftina sem er framaná lakkrískurlinu enn í einhverju hugsunarleysi setti ég þrjá DESILÍTRA af eggjahvítum enn ekki þrjár eggjahvítur. Einn dl af eggjahvítum er semsagt ca 3 eggjahvítur þannig að þarna var ég komin með 9 eggjahvítur án þess að fatta það. Útí þetta skellti ég 200 gr af sykri eins og stóð í uppskriftinni og lét þetta svo þeytast alveg heillengi. Þegar ég síðan stoppaði hrærivélina var ég vægast sagt undrandi hvað var mikið í henni, minnti nefnilega að uppskriftin væri ekki svona stór, enn ég pældi ekkert meira í því. Einnig fannst mér hræran alveg svakalega stíf, sá fyrir mér að þetta yrðu mjög flottir toppar! Þannig að ég skellti lakkrískurli og súkkulaði útí enn mér fannst það eiginlega bara vera dropi í hafið!

Eins og sjá má voru þeir mjög stífir! 
Þegar þarna var komið sögu fór ég aðeins að hugsa, ótrúlegt enn satt. Og áttaði mig þá á mistökunum. Enn þar sem að ég var búin að setja súkkulaðið útí var lítið í þessu að gera, ég smakkaði og þetta var bara eiginlega eins og venjulega þannig að ég lét slag standa og skellti meira súkkulaði útí. Græjaði þetta á plötu og inní ofn. Ég get nú ekki sagt að þeir hafi verið fallegir, enn þeir brögðuðust ekkert illa samt. Það sem aðallega háði þeim greyjunum var að tolla ekki saman og vera bara límdir við bökunarpappírinn. Þannig að ég skóf þá alla saman í ruslið og sökum mikillar fýlu í þeirra garð eru engar myndir af þeim. Enn svona án alls gríns þá gleymdi ég bara að taka mynd. Þannig að í kvöld er ég búin að afreka það að henda 9 eggjahvítum, 200 gr af sykri og að ég held 300 gr af súkkulaði og 300 gr af lakkrískurli! Það er nú bara nokkuð dagsverk skal ég segja ykkur!

Ég gat nú engan vegin hætt án þess að þessi bakstur hefði skilið eitthvað eftir sig, þannig að ég ákvað að græja botna fyrir sörur, sem verða síðan kláraðar síðar. Græjaði 60 stykki af litlum krúttlegum sörubotnum. Hef samt grun um að ég verði skömmuð á morgun. Kobbi er ekki sérlega hrifinn af svona munnbitakökum, enn mér finnst að smákökur eigi að vera litlar og krúttlegar :)
Kobbi verður kominn í frí á morgun eftir næturvaktatörn þannig að við getum vonandi sett kremið og jafn vel súkkulaðið á annað kvöld. Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út. Við höfum aldrei gert sörur áður.

Enn nú er sennilega best að koma sér í bólið, jólaball í leikskólanum á morgun og við hlökkum bara til. Vona nú að ég tolli í vinnunni það sem eftir er fram að jólum. Hefði sennilega átt að spara stóru orðin í gær þar sem ég byrjaði að æla í gærkvöldi og skemmti mér við það eitthvað fram eftir nóttu. Lagði þar af leiðandi ekki í að mæta til vinnu í morgun enn er svo búin að vera fín í dag. Og þá er maður auðvitað með nagandi samviskubit að hafa ekki mætt. Enn ég bæti það upp á morgun, held að ég sé ekkert minna spennt fyrir þessu jólaballi heldur en krakkarnir :)

Þangað til næst.

Engin ummæli: