þriðjudagur, 28. janúar 2014

Tilbúin peysa! :)

Ég var alveg ótrúlega spennt að klára þessa peysu, fyrsta peysan sem ég hef gert alveg frá grunni! Uppskriftin og munstrið er mitt, ég saumaði í fyrsta skipti sjálf í miðjuna til þess að opna peysuna og heklaði og alltsaman, fannst ég alveg ótrúlega dugleg þegar ég var búin!



Ótrúlegt enn satt var ég meira að segja frekar snögg að þessu, fráganginum það er að segja...alltof langt síðan ég byrjaði á peysunni!
Enn venjulega dregst frágangurinn á langinn hjá mér enn í þetta skipti felldi ég af á föstudaginn og peysan er tilbúin og búið að þvo á þriðjudegi, sem er nokkuð gott miðað við það að ég hef alveg átt tilbúna peysu í nokkra mánuði inní skáp! Eins gáfulegt og það nú er...


Hér er mynd af peysunni áður enn hún var opnuð.

Og hér koma nokkrar myndir sem einkenna laugardagsmorguninn hjá okkur Hafþóri Svani, það er að segja fyrir klukkan 10 þegar við fórum út í göngutúr :)


Þarna sést Sísí svín sem við Kobbi keyptum þegar við fórum til Reykjavíkur. Svanurinn minn hefur aldrei verið mikið fyrir bangsa enn ég hef samt stundum reynt að pína þeim uppá hann með litlum árangri. Hann hefur aftur á móti tekið algeru ástfóstri við þetta fína svín, enda hefur hann mikinn áhuga á svínum. Hann lærði eiginlega fyrst hljóðið sem svínin gefa frá sér og þekkir svín vel á myndum. Eiginlega frekar fyndið þar sem þetta er eitt af fáum húsdýrum sem hann hefur ekki séð! Ætli Steinunn afasystir hans eigi ekki mikinn þátt í þessu, hún á nefnilega svo fínan sparibauk sem vill svo skemmtilega til að er svín. Hann er allavega hæstánægður með Sísí sína! :) 


Enn peysan er allavega tilbúin og hér kemur mynd af henni og svo nærmynd af munstrinu. 



Og nú er bara að finna einhvern sem passar í peysugarminn og svo er ætlunin að fara að klára verkefnin aaaaðeins hraðar, allavega þannig að tilætlaðir eigendur verði ekki löngu vaxnir uppúr flíkunum áður enn þær eru tilbúnar! :)

Þangað til næst! 




laugardagur, 25. janúar 2014

Leirgerð og bakstur :)

Í gærkvöldi ákvað ég að skella mér í leirgerð, ég skoðaði nokkrar uppskriftir á netinu og bjó til einhverja samsuðu af þeim, ætla samt að prófa aftur og hafa hræruna þá svolítið stærri og vera með nákvæmari mælieiningar, þetta var svolítið slump :)

ca 2,5 dl hveiti
3/4 dl fínt salt
1 dl olía
2 dl vatn
3 tsk sítrónusafi

Oki ég tek enga ábyrð á þessum hlutföllum, held þetta hafi verið ca svona... allt sett í pott og seinast sítrónusafinn.

Hrært þannig að þetta blandist allt og verði nokkuð góð kúla, þá tekið og látið kólna aðeins og hnoðað. Ef leirinn er of klístraður má bæta hveiti eins og þarf, og svo gerir matarlitur auðvitað gæfumuninn!


Og þar sem að ég er heimsins mesti sóði ákvað ég að setja leirinn og matarlit í plastpoka og hnoða saman í gegnum pokann...enn hafði það samt sem áður af að verða blá á puttunum!


Ég var nú bara alveg ótrúlega sátt með þetta allt saman, geymi leirinn bara í plastpoka og hlakka til að sjá hvað hann endist. Hafþór Svanur á nú samt eftir að venjast leirnum, honum fannst þetta eiginlega frekar ógeðslegt!

Við prófuðm leirinn aðeins í morgun og fórum svo í göngutúr, ákváðum svo að gera aðra tilraun af mexíkóosta-muffins eftir hádegið. Og að þess sinni er ég bara mjög sátt með þær :) 

Mexíkóosta-muffins

3 egg
1 dós aspas (Ora), líka vökvinn.

Hrært svolítið í hrærivélinni

150 gr hveiti
150 gr heilhveiti
1 msk lyftiduft
1 pakki fajitas sesoning mix
Blandað saman í annarri skál og sett útí í smáum skömmtum. 


1 dl olía
1 dl mjólk

Bætt útí og þá er hræran klár

1 mexíkóostur
1 piparostur
1 pakki skinka
1/2 box af sveppum
1 paprika
1 laukur

Allt skorið frekar smátt og hrært útí blönduna. 
Sett í möffinfsform og rifinn ostur ofaná. 
Bakað við 180 gráður í ca 10 mín :) 

Við eigum pottþétt eftir að gera þessar oftar, snilld til að eiga í frystinum og skella inní ofn þegar mann langar í eitthvað gott í kaffinu :) 



miðvikudagur, 22. janúar 2014

Mexíkóosta-muffins

Jæjja jæjja, í dag er ég heima með lítinn stubb sem er að jafna sig eftir veikindi.
Þá er auðvitað um að gera að nýta tímann vel og þess vegna erum við Hafþór Svanur búin að baka.

Fyrir valinu urðu muffins með mexíkóosti.

Þetta er eitthvað sem hefur verið á dagskrá svolítið lengi og uppskriftin er að sjálfsögðu bara eitthvað bull.

4 egg
1 dós skorinn aspas (líka vökvinn)
150 gr hveiti
150 hg heilhveiti
1 msk lyftiduft
smá salt og pipar
1 dl olía
ca 1/2 pakki beikon
1 mexíkóostur
1 paprika
1/2 box af sveppum
200 gr rifinn ostur (ca 150 gr í hræruna og hitt ofaná)

Ég byrjaði á að skella eggjum og aspas í hrærivélaskálina og hræra vel. Þá blandaði ég saman hveitinu, lyftidufti og smá salti og pipar. Því næst fór 1 dl af olíu útí. Þessu var öllu blandað saman í hrærivélinni enn hinu var hrært saman við með sleikju, held það færi ekki vel í hrærivélinni.
Ég ætlaði nú að nota skinku og var alveg viss um að ég ætti hana til enn svo var ekki, enn við fundum hálfan pakka af beikoni sem fór útí, 1 mexíkóostur í bitum, ein paprika í bitum, 1/2 box af sveppum og svo slatti af rifnum osti.


Þetta var síðan bakað á ca 180 gráðum í ca 10 mín. 



Eftir á að hyggja hefði mátt fara meira af osti, það er að segja einhverjum svona kryddosti auk þess sem ég hefði eiginlega þurft að setja eitthvað gott krydd útí líka. Þetta var heldur bragðlítið fyrir okkar smekk.



Næst verður meiri ostur, skinka, laukur og krydd! Uuummm :) Enn erum samt frekar sátt sko, enn það má alltaf breyta og bæta :)


Þangað til næst! :)

þriðjudagur, 21. janúar 2014

Handavinnublogg...aðeins á eftir áætlun


Jæjja, í dag var okkur Hafþóri boðið í afmæli hjá vinkonu okkar. Í gær var því saumavélin tekin upp og afmælisgjöfin græjuð.


Þarna var ég búin að velja mér efni, ég á talsvert af mynstruðu jersey efni og hef samað buxur úr því og nota þá svart stroff með. Enn að þessu sinni ákvað ég að prófa að gera pils. Stroffið hafði ég tvöfallt og ca 10 cm hátt, síddin á pilsinu sjálfu var svo 30 cm. Víddi  á stroffinu voru ca 45 cm og pilsið gert úr tvem 45 cm breiðum bútum. Semsagt alveg eins að framan og aftan og saumar í hliðum.
Að lokum setti ég svart skáband neðst.


Ég er mjög sátt með pilsið og mér er sagt að það passi afmælisbarninu (4 ára) vel. :) Aldrei að vita nema ég geti einhvertíman sett hérna inn mynd af skvísunni í pilsinu. 

Þangað til næst! 

mánudagur, 13. janúar 2014

Ríkjandi og víkjandi

Ég þóttist víst ætla að hafa handavinnublogg á mánudögum, enn var auðvitað búin að gleyma því þegar ég settist við tölvuna áðan þannig að það koma bara tvö blogg núna og svo örugglega ekkert í mánuð!

Ég hef tiltörlega nýlega farið að kynna mér ríkjandi og víkjandi liti í tvíbandaprjóni. Þetta er eitthvað sem ég var bara alls ekki meðvituð um og vissi varla að væri til. Þannig er semsagt mál með vexti að það skiptir máli hvor liturinn er fyrir framan eða aftan þegar maður prjónar með tvem (eða fleiri) litum. Svolítið erfitt að útskýra þetta á prenti enn Tína gerir það mjög vel og ég ætla bara að setja hérna inn link á færslu sem hún skrifar um þetta málefni, mjög áhugavert!

http://www.innihald.is/heimili-og-fjolskylda/rikjandi-eda-vikjandi-litur-ha

Ég er ein af þeim sem hef alltaf snúið inní ef langt er á milli þess sem maður þarf að nota sama litinn, enn við það víxlast þetta. Þarna skrifar Tína einnig örstutt um aðferð sem hún notar til þess að prjóna tvíbandað og prjónar þá með annann litinn í hægri hendi og hinn í vinsti og þetta hef ég tileinkað mér núna. Þarf stundum örlitla upprifjun í upphafi ef er langt síðan ég hef prjónað tvíbandað enn þetta er allt að koma. Settist niður eitt kvöldið ákveðin í því að læra þetta og við það sat, tók ansi langann tíma enn ég held það spari manni samt fullt af tíma þegar uppi er staðið. Það fer nefnilega lúmskur tími í það að sleppa og skipta um spotta eins og ég var oft að gera. Ég er samt núna að prjóna peysu sem er með ansi mörgum umferðum þar sem eru 3 litir, það er ekki alveg jafn þægilegt, enda ekki fólk með réttu ráði sem gerir þannig munstur (það skal tekið fram að ég hannaði það sjálf).

Enn ég mæli eindregið með því að kynna sér þetta, bæði þessa nýju (fyrir mér allavega) prjónaaðferð og hversu mikilvægir ríkjandi og víkjandi litir eru. Ég var eiginlega bara í sjokki eftir lestur þessarar greinar.

Enn allavega, í seinustu viku var ég eitthvað að tala um inniskó handa Hafþóri. Ég skellti í svoleiðis um helgina enn þeir eru heldur litlir á hann, þarf eitthvað að útfæra uppskriftina betur og prófa aftur :)


Svona litu þeir út fyrir þvott. 


Og svona eftir þvott!
Ég skellti mínum líka í vélina, þeir voru aðeins of stórir.


Ég var í rauninni mjög ánægð með þá, þeir þæfðust bara aðeins of vel. Ég var alveg að hugsa um það í gærkvöldi þegar ég var að þæfa að reyna að klæða Hafþór í þá blauta því þá laga þeir sig svo vel að fætinum, enn ég tók ekki alveg sénsinn á því þar sem hann var sofandi. 


Eins og sjá má eru þessir skór ósköp smáir, ætli mínir séu ekki ca stærð 37. 


Hafþór Svanur fékk að máta skóna í morgun og var ákaflega sæll með þá, það er að segja þangað til þeir duttu af eftir hálft skref! Enn þeir eru eiginlega of stuttir þannig að þeir detta alltaf af við hælinn, enn þá er bara að prófa aftur :) 


Svakalega fínn svona í morgunsárið :) 

Verð vonandi búin að græja aðra aðeins stærri eftir viku, enn það verður nú eitthvað minni tími næstu helgi þannig að það er alls ekki víst :) 

Lopakjóllinn gengur ansi hægt, hann hefur það bara gott í skápnum mínum í vinnunni og ég prjóna ca eina umferð á dag, verð sennilega búin eftir 3 ár með þessu áframhaldi! 

Önnur verkefni sem eru á prjónunum eru ekki til umræðu alveg strax, kem einhvertíman með handavinnublogg og sýni eitthvað af þúsund ókláruðu verkefnunum mínum! :)

Þangað til næst!






Jólin loksins búin!

Jæjja þá eru jólin loksins komin ofaní kassa á þessu heimili, ekki nema viku á eftir áætlun! Spurning samt hvað er mikið eftir, ég hélt nefnilega líka að allt væri komið í gær...ætli ég verð ekki að finna jóladót fram að páskum.

Við höfum bara verið í rólegheitunum hér, búið að vera leiðinda veður, aðallega rigning og rosaleg hálka þannig að við höfum lítið farið út. Þykjumst alltaf ætla að vera voða dugleg að labba í leikskólann á morgnana eeeenn það hefur verið eitthvað lítið um það! Þetta stendur þó til bóta því nú er allavega kominn smá snjór, enn hann er ansi blautur.

Það er þó helst til frásagnar að við Hafþór Svanur höfum bæði mætt í leikskólann í heila 9 daga án þess að vera veik, ótrúlegt enn satt! Og vonandi heldur það áfram að vera þannig.

Við systur skelltum okkur uppá Egilsstaði um helgina og fórum á fimleikasýningu með ávaxtakörfuþema, að sjálfsögðu fékk Hafþór Svanur að koma með og fannst þetta nú ekkert lítið skemmtilegt. Svona fyrsti klukkutíminn allavega, þá var hann alveg kominn með nóg :)


Hér gengur bara allt sinn vanagang, við erum eiginlega bæði svo þreytt eftir leikskólann að við gerum varla nokkuð, það tekur á að vera allt í einu í vinnu/leikskóla 8 tíma á dag, búin að vera alltof lengi bara í einhverju heimakósý! :) 


Meðferðin á Mikka greyinu hefur lítið skánað og áðan virtist Hafþór Svanur vera sannfærður um að hann væri bílabraut, keyrði allavega upp eftir honum öllum stuttu eftir að þessi mynd var tekin...það sem þessi köttur lætur ekki yfir sig ganga! 


Og á meðan ég var að ganga frá eftir matinn komu þessir félagar sér vel fyrir í sturtubotninum og léku sér þar. 

Ég man aldrei eftir neinu sem við gerum fyrr enn ég fer að skoða myndir, og í þessum skrifuðu var ég að renna yfir nýjustu myndirnar í tölvunni og þar eru nokkrar alveg priceless af Hafþóri.
Hann fékk semsagt að vaska upp um daginn eftir leikskóla....


Þetta var nú alls ekki leiðinlegt, og að sjálfsögðu var Mikki ekki langt undan! Hann var þó fljótur að forða sér þegar vatnið hætti að tolla í vaskinum... Þetta er fyrsta myndin sem ég tók og þarna er Hafþór Svanur enn nokkuð þurr....það entist stutt! 


Það þurfti auðvitað að smakka á sápunni... og svo var frussað og frussað, alveg þangað til hann smakkaði aftur! Maður verður nú að smakka lágmark 5x til að vera alveg viss um að þetta sé ekki ætt! 


Á þessari mynd er samfellan nú ekki alveg þurr lengur... og gólfið allt á floti, eins og tilheyrir svona verkefnum. Enn þegar þarna var komið sögu fannst mér eiginlega ekki annað hægt enn að skella stubbnum bara í bað. Eða þið vitið, bala í sturtunni! Þannig að ég fór og lét renna í balann enn í því hringir síminn, næsta mynd var tekin þegar ég kom til baka örfáum sekúntum seinna. 



Þangað til næst :) 








mánudagur, 6. janúar 2014

Vettlingar úr smartgarni



Ótrúlegt en satt þá hafði ég það af að klára þessa vettlinga, nánar tiltekið gekk ég frá seinustu endunum í kaffinu í dag! Hefði pottþétt ekki gert það strax nema afþví ég ætlaði að setja hérna inn,,, þetta skilar þá einhverju allavega :)

Ég prófaði að gera útaukninguna fyrir þumlinum á 2 mismunandi vegu og er mun sáttari við þessa vettlinga heldur enn hina. Set inn hér að neðan myndir til samanburðar.


Hér finnst mér efri þumallinn eitthvað mjög skrítinn og er mun sáttari við hina. Útskýri muninn betur í uppskriftinni. 


Ætla að henda hérna inn uppskrift, þetta eru nú samt sennilega svona unglingastærð af vettlingum. Er nú ekki með stórar hendur og mér finnst lang best að hafa vettlinga frekar þrönga. Enn hér kemur uppskriftin.

Prjónar nr 3,5 og 1 dokka Smart garn.

Fitja upp 36L
Prjóna stroff (1slétt, 1brugðin) 15 umf.
Í fyrstu sléttu umferð er aukið út um 4 lykkjur - 40.
Þá er byrjað á þumaltungunni.
Aukið er út um 2 lykkjur í annari hverri umferð þar til lykkjur eru orðnar 56.
Til að fá útkomuna sem með finnst fallegri er fyrst aukið út eftir fyrstu lykkju í umferð og fyrir seinustu, næst er þá aukið út eftir tvær lykkjur og þegar tvær lykkjur eru eftir og þannig koll af kolli.
Einnig er hægt að auka alltaf út eftir fyrstu lykkju og fyrir seinustu enn mér persónulega finnst það alls ekki koma nógu vel út.
Jæjja, þá eru 16L settar á band og geymdar (þumall) hitt er tengt saman í hring og prjónað slétt 25 umferðir. Þá er tekið saman. Tekið saman um fjórar lykkjur í hverri umferð, sitthvoru megin í báðum hliðum. Tekið úr þannig þar til 8 lykkjur eru eftir, bandið dregið í gegn og slitið frá.
Þumall:
Lykkjurnar tekknar upp (16) og prjónað í hring, 12 umferðir. Þá er tekið saman á sama hátt og í belg (4 lykkjur í hverri umf, 2 sitthvoru megin í hliðunum). Þar til 4 lykkjur eru eftir og þá er bandið dregið í gegn og slitið frá.
Gangið frá endum :)

Einfaldara gæti það ekki verið!



Og mitt uppáhald er að báðir vettlingar eru eins þannig að þeir virka bæði á hægri og vinstri, þarf að útfæra svona uppskrift betur í 2 ára stærð líka :)

Nú er ég samt byrjuð á lopakjól á mig enn ætla að græja skó handa Hafþóri fljótlega líka, það er fínt verkefni á kaffistofuna :)

Geri samt ekki ráð fyrir miklum afköstum í litlum verkefnum á meðan lopakjóllinn verður í vinnslu enn það kemur í ljós :)

Þangað til næst :)

Pizza-bakstur

Ég hef lengi haft andlegt óþol fyrir geri, eða öllu heldur gerbakstri.

Það er ekki alveg mitt að þurfa að hugsa með fyrirvara, henda dóti í skál - bíða - hnoða - bíða aftur og geta þá loksins farið að klára þetta og setja inní ofn. Onei, ekki alveg fyrir mig... ég þarf helst að henda hráefnum í skál og svo öllu saman beint inní ofn STRAX! Af þessu leiðir að gerbakstur er ekki alveg eitthvað fyrir mig.

Ég er alin upp í því að það sé bökuð pizza alla laugardaga, og þá er mamma oftast komin með deigið í skál um 5. Á þeim tíma erum við oftast einhversstaðar á flakki... eða allavega ekki mikið farin að huga að kvöldmat nema eitthvað sérstakt standi til.

Ég hef prófað margar uppskriftir sem innihalda lyftiduft í staðin fyrir ger og hef komist að því að mér finnst koma best út að hafa ab-mjólk, flestar uppskriftir gera reyndar ráð fyrir súrmjólk enn á þessu heimili er hún aldrei til þannig að ab-mjólkin var næsti kostur :)

Í gær skellti ég í pizzu í hádeginu.

4 dl heilhveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1/2 dl olía
1 1/2 dl ab-mjólk

Þessu var öllu grautað saman ásamt smá pizzakryddi og blandað vel, fannst reyndar deigið vera heldur þurrt og hefði mátt bæta smá ab-mjólk í það, nógu illa gekk allavega að fletja það út.




Já ég er enginn útfletjari í mér... afar sjaldan sem mínar pizzur eru kringlóttar, þær eru meira í ætt við krossfiska, þessi er reyndar alveg sérstaklega slæm! 
Ég ákvað að nota afgangs kjúlla, rauðlauk og gular baunir... strákarnir mínir voru nú ansi hissa enn okkur fannst þetta fín tilbreyting :)

Ég er rosalega sátt með svona ab-mjólkur pizzu, hlakka til að prófa að gera snúða eða skinkuhorn eða eitthvað, nokkuð sem ég nenni voða sjaldan að baka sem andlega geróþolsins! ;)

Þangað til næst :) 

sunnudagur, 5. janúar 2014

Áramót, jólaboð á Hafranesi og fleira :)

Nú er árið 2014 gengið í garð, 2013 var mjög gott í alla staði og ég hlakka til að takast á við breytingar á nýju ári. Hlakka til að aðlagast nýju vinnunni og breyttum vinnutíma betur og fylgjast með Hafþóri mínum vaxa og þroskast :)

Grettukeppni!

Við náðum að hitta ótrúlega marga á gamlárskvöld, þrátt fyrir mikinn slappleika og vesen á mér. Við vorum nú reyndar ekki nógu dugleg að taka myndir. Við heimsóttum Sigga, Öllu, Fannar Daða og Ólöfu og svo kíktum við til Steinunnar og Eiðs rétt um miðnætti og þar var að venju samankomið fullt af fólki, Steinunn og co, pabbi og co, Ingi og co og Þórunnborg og Ragnar. Gerist varla betra :) Hafþór Svanur tók mjög vel í flugendana og var rosalega spenntur fyrir þessu öllu saman. Hann var líka með þeim allra hressustu í partýinu þangað til við fórum heim klukkan að verða 2 *vanhæfir foreldrar*
Þar sem að ég var bara inni var lítið um myndatökur á gamlárs, Kobbi gerði reyndar tilraun til að taka myndband sem er vægast sagt áhugavert! Allt hreyft og alveg í ruggli, maður gæti haldið að hann hefði verið alveg á perunni enn nei nei hann var edrú! ;)

Þessi köttur... 

Ég hlakka til að fara með Hafþór Svan á þrettándabrennu og vona að ég komist, hef ekkert komist í vinnuna enn (2 vinnudagar búnir af þessu ári) enn þetta stendur allt til bóta. Sýklalyfjaskammtur númer tvö rétt að klárast við þessar fínu lungnabólgu og ég reyni mitt besta að hafa mig hæga svo mér slái ekki niður aftur, tveir skammtar er bara fínt takk! ;) Hafþór Svanur er nú samt svo heppinn að ef að ég treysti mér ekki á mánudaginn þá ætlar amma hans með hann, því pabbi hans verður að vinna til 8. Það er alveg nauðsynlegt að eiga góða að! :)

Hafþór Svanur lætur fara vel um sig


Það sem af er ári hefur farið í mikil rólegheit, Hafþór Svanur búinn að mæta 2 daga í leikskólann og var eiginlega bara ekkert á því að koma heim aftur. Mikið held ég að hann verði feginn (og við öll) að fá smá rútínu aftur.


Borða köku


Í dag fórum við útí sveit til afa Frissa og þar var loksins haldið jólaboð sem hafði verið frestað sökum veður og færðar. Mikið var nú gaman að hitta allt fólkið okkar :) Ég segi allt enn samt vantaði nú ansi marga sem er auðvitað alltaf leiðinlegt. Enn við gerðum bara gott úr því og skemmtum okkur vel saman, vonumst bara til að allir hinir hafi tök á að koma þegar við hittumst næst :)


Strákarnir mínir kíktu aðeins út á kindurnar og sópaði Hafþór Svanur aðeins fyrir afa sinn. Auk þess sem hann þurfti aðeins að keyra.

Fannar Daði og Hafþór Svanur

Þessir sætu strákar léku sér líka saman, þó ekki jafn mikið og á gamlársdag. Þá voru þeir hinir mestu mátar og komnir tveir inní herbergið hans Fannars Daða að leika sér :)

Hafþór Svanur og Ólöf Rún

Ólöf Rún var að sjálfsögðu líka knúsuð. Takið sérstaklega eftir því hvað hann er lekkert í adidasbuxum og skyrtu... æjji það má allt í sveitinni!
Og svo fékk Hafþór Svanur að smakka hrátt hangikjöt og líkaði ekki illa.


Hér í lokin ætla ég að setja eina mynd og leyfa ykkur hinum að njóta þess að gera grín að mér. Við vorum semsagt að eignast nokkrar taubleiur í viðbót (ég veit, ég veit) og ég fékk líka nýja fína hillu sem Hafþór Svanur nær ekki í. Hann hefur nefnilega mikinn áhuga á bleiunum sínum og vill helst vera í frispí með þær... mér til lítillar ánægju! 
Það skal tekið fram að á þessari mynd eru ekki allar bleiurnar hreinar, enn flestar þó... spurning hvort sé ekki kominn tími á smá fækkun ;)



Ætla að ljúka þessu með myndum af stubbnum mínum síðan í gærkvöldi, já eða nótt. Eins og hann var í rúminu þegar við fórum að sofa.
Þangað til næst :)


Best að sofa í miðjunni...þversum!