sunnudagur, 1. júní 2014

Sorglegar niðurstöður kosninga...

Því verður seint haldið fram að ég sé pólitísk, hef í raun ekkert mikið fylgst með pólitík seinustu ár enn þetta er þó alltaf eitthvað sem kemur okkur öllum við og að sjálfsögðu mætti ég á kjörstað og nýtti rétt minn í gær. Annað finnst mér vera óvirðing við alla þá sem börðust með öllu sínu fyrir þeim kosningarétti sem við teljum sjálfsagðan í dag. 

Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst niðurstöður kosninganna í gær afar sorglegar. Ekki í þeim skilningi að ég hafi staðið eitthvað sérstaklega með einum flokki. Hér í fjarðabyggð voru 3 flokkar í framboði og fengu allir þrír flokkarnir 3 menn kjörna inní bæjarstjórn. Frekar áhugaverð niðurstaða og það verður gaman að sjá hverjir munu sameinast í meirihluta. 

Það eru þó alls ekki þessar niðurstöður sem ég á við, kjörsókn hefur yfir allt landið verið dræmari enn áður, enn þetta finnst mér í minningunni vera eitthvað sem rætt sé um í kjölfar hverra kosninga.

Léleg kjörsók þykir mér afar sorglegt og algerlega óháð því hvaða flokkar náðu kjöri þá var kjörsóknin verri enn áður í flestum sveitarfélögum landsins, og það er mikið áhyggjuefni út af fyrir sig!

Það hefur alltaf verið mín meining að fólk eigi að mæta á kjörstað og nýta rétt sinn, hvort sem fólk kjósi, skili auðu eða ógildi atkvæði sitt.


Léleg kjörsókn er áhyggjuefni fyrir alla flokka, á landinu í heild. Hvort sem menn unnu sigur í gær eða ekki þá er minkandi áhugi á stjórnmálum eitthvað sem virkilega þarf að kanna og ráða bætur á! 

miðvikudagur, 21. maí 2014

Hvítlaukur, engifer og karrý!

Þegar maður er með fáránlega mikla hálsbólgu og kvef er þá ekki alveg eðlilegt að fá sér grænmetissúpu með óhóflegu magni af hvítlauk, engiferrót og karrý í morgunmat?
Hálsbólgan getur allavega ekki versnað við það! ;) 




Annars hefði ég þurft að ná mynd af veðrinu áðan, það snjóaði... já já snjór 21.maí. Reyndar bara í smástund, nú er bara slidda. Þetta veður sko! :) 

miðvikudagur, 7. maí 2014

Afmælisstrákur

Það er með þetta blogg eins og allt annað hjá mér, það er annað hvort of eða van! Mörg blogg á dag stundum og svo ekkert í margar vikur... enn það er bara þannig.


Þann 30.apríl seinastliðinn varð Hafþór Svanur stubbalingur 2.ára. Honum fannst agalegt sport að fá að mæta í skyrtu og með slaufu í leikskólann og var agalega monntinn með sig, þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað væri í gangi!

1.maí héldum við síðan afmælisboð fyrir fjölskyldu og vini sem heppnaðist mjög vel.
Það var að sjálfsögðu búið að vera smá vesen á mér, enda planið að gera kúlugúbba sykurmassaköku. Ég var nokkrum dögum áður byrjuð að gera það skraut sem ég vildi hafa alveg hart. Ég keypti sílíkonmót hjá alltikoku.is og mæli hiklaust með því, virkilega auðvelt í notkun enn þetta tekur auðvitað allt sinn tíma.



Þar sem að ég lagði ekki í að móta allar persónurnar úr kúlugúbbunum úr sykurmassa þá prentaði ég út myndir af þeim og límdi á pinna sem ég stakk síðan í kökuna. Held að það hafi bara komið mun betur út heldur enn að reita hár yfir sykurmassanum í einhverja daga ;) 


Þetta var lokaniðurstaðan og við vorum bara ansi sátt, þarna sést nokkuð vel hvað hafði verið gert nokkrum dögum áður og látið harna og hvað var fest á á meðan það var mjúkt. Stjörnurnar, kórallarnir og skeljarnar ofaná voru orðnar alveg harðar (samt alveg ætt) þannig að þetta var mjög stíft enn það hefði ekki verið hægt að setja öldurnar neðst nema þær væru mjúkar :) Mér fannst koma vel út að hafa sumt svona stíft og annað mjúkt :)

Afi hjálpaði stubbnum sínum að skera kökuna, það kom honum eiginlega ansi mikið á óvart þegar hann fattaði að þetta væri kaka!

Hann var mjög spenntur og sagði "búbba, búbba, búbba" í gríð og erg. Og gerir það reyndar líka núna þegar hann sér myndirnar :) 

Við höfum nú ekki setið auðum höndum eftir afmælið, seinasta föstudag fórum við strax eftir leikskóla til afa í sauðburðinn og gistum eina nótt, þá fórum við stubbur heim enn Kobbi er þar enn að hjálpa pabba sínum enda sauðbrður í fullum gangi :) 


Litla stubbu leiddist sko alls ekki í sveitinni enn uppáhaldið er að fá að kasta steinum í lækinn, vera alveg hjá kindunum, honum finnst sko enginn tilgangur í því að standa uppí garða. Enn það sem mönnum þótti allra, allra skemmtilegast var að fá að gefa. 


Menn voru líka ekkert að spara heyið. "Meee boa, Meee meia boa"


Svakalega duglegur stubbur sem vildi helst bara fá að gefa endalaust. Við vorum komin niðrí fjárhús klukkan 6 og klukkan 10 þegar við vorum að fara heim varð hann frekar reiður að fá ekki að brasa meira :)

Þangað til næst :) 





sunnudagur, 13. apríl 2014

Endurnýting

Núna er ég með í láni saumavél hjá vinkonu minni. Okkur semur nú samt ekki alltaf og stundum förum við í margra vikna fýlu við hvor aðra. Mikið held ég samt að mamma sé fegin að fá að hafa sína vél í friði!
Í gær náðum við sáttum, eftir ansi langa fýlu. Ég hef ótrúlega takmarkaða þolinmæði ef hún tekur uppá því að vera að flækja mikið. Enn alveg frábært samt sem áður að geta gripið í hana hérna heima enn þurfa ekki að fara til mömmu :)

Það var semsagt saumakvöld í gærkvöldi, græjaði kjól á mig og kláraði buxur sem ég var að sauma á Hafþór Svan.


Það væri nú svolítið gaman að láta ykkur halda að ég væri alger snillingur og hefði saumað þennan kjól. Enn það er nú ekki alveg svo gott. Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast við saumið er endurnýtingin, að geta breytt gömlum fötum þannig að þau fái nýtt líf og hennti betur :)
Þetta voru semsagt tveir kjólar, annar var alveg doppóttur og hinn alveg úr tjulli. Enn efri parturinn á tjull kjólnum var engan vegin að gera sig þannig að þá var ákveðið að skeyta þeim saman. Og þetta varð útkoman. Ég er bara nokkuð sátt. Sérlega gaman líka að hafa tekið tvo kjóla sem lágu bara inní skáp og voru aldrei notaðir og búa í staðin til einn nothæfan kjól :) 


Ég kláraði líka buxur á Hafþór Svan sem ég byrjaði á fyrir löngu. Þær eru líka svona endurnýtinga-verkefni. Eins og þeir sem þekkja Kobba vita þá helst honum afar illa á buxum. Hann hefur einhvern sérlegan hæfileika til þess að rífa buxurnar sínar við ótrúlegustu athafnir. Ég á að sjálfsögðu mjög erfitt með að losa mig við ónýtu buxurnar, oft glænýjar og alveg heilar nema með eina risastóra rifu einhversstaðar. Í sumar eða haust reif Kobbi semsagt svona ljósbrúnar buxur sem hann átti. Efnið var frekar þunnt þannig að ég ákvað að græja buxur handa Hafþóri. Bætti bara við stroffinu þannig að þær tolli kannski uppi :) 

Takið samt eftir því að þetta blogg kemur inn rúmlega 7 á sunnudagsmorgni. Það bilaðasta við það er samt að Hafþór Svanur er ennþá sofandi! Hann er semsagt farinn að venja sig á að vakna oftast um 6....sem þýðir það að ég vaknaði auðvitað hálf 7 og get ekki með nokkru móti sofnað aftur þó að hann og Kobbi séu steinsofandi. Allt eðlilegt við það! 

Læt fylgja hérna neðst eina mynd af Hrafnhildi Söru og Hafþóri Svani að leika sér, enn við fengum að passa hana smá um daginn :)




mánudagur, 7. apríl 2014

Svefn barna er heilagur!

Eitt það erfiðasta sem ég veit eftir að ég eignaðist stubbinn minn er ef ég þarf að vekja hann. Mér finnst það alveg ótrúlega erfitt, enda finnst mér að börn eigi bara að fá að sofa. Ég gæti reyndar verið svolítið lituð af því hvað hann svaf lengi illa, ef hann svaf var það þar af leiðandi algerlega heilagt og ekki í boði að vekja hann nema brýna nauðsin bæri til.

Síminn minn vekur mig alltaf klukkan 6:45, á þeim tíma er Hafþór Svanur oftast vaknaður. Hann er undantekningalaust kominn uppí og ef hann er ekki vaknaður þá vaknar hann um leið og ég fer frammúr.
Nema í morgun, hann er enn sofandi!
Ég veit eiginlega ekki hvað er í gangi og snýst bara í hringi hérna!
Búin að græja fötin hans og allt fyrir leikskólann
Búin að dunda mér þvílíkt við að taka mig til
Búin að hengja upp þvott
Búin að fá mér morgunmat (sem ég geri nánast aldrei fyrren bara í vinnunni, gæði þessa morgunmatar er aftur á móti allt annað mál!)
Búin að brjóta saman talsvert af þvotti.

Og nú bíð ég bara...

Fullkomlega meðvituð um það að ef að maurinn vaknar ekki á næstu örfáu mínútum þá neyðist ég til þess að vekja hann...enn ég bara fæ mig enganvegin til þess!


Og ef að þið haldið að ég sé með ósamstæð rúmföt þá er það misskilningur.... bangsimon og kærleiksbjörninn eru augljóslega samstætt sett ;) 

sunnudagur, 6. apríl 2014

Bad hairday?


Í gær fórum við Kobbi í matarklúbb, Hafþór Svanur fékk að gista hjá afa sínum og ömmu og hefur án efa verið í alltof miklu dekri!

Enn núna áðan þegar ég vaknaði fékk hugtakið "bad hairday" algerlega nýja merkingu fyrir mér!



Mér fannst þetta svo fáránlega fyndið að ég varð að leyfa fleirum að hlæja! Þetta virðist samt vera miklu minna á myndum, ég gæti allavega auðveldlega leikið brjálaðan prófessor í augnablikinu. 

Ég er allavega farin í sturtu, spurning hvernig gangi að rétta úr lubbanum! 

sunnudagur, 30. mars 2014

Yndisleg helgi

Við litla fjölskyldan erum búin að eiga alveg frábæra helgi með góðu fólki. Mér finnst að allar helgar ættu að vera svona, og þá sérstaklega veðrið. Ég vona bara að veðrið haldist svona gott endalaust lengi, enn að öllum líkindum byrjar að snjóa aftur þegar tökuliðið fer heim til sín. Það virðist vera hefðin.

Eftir leikskóla á föstudaginn skelltum við okkur í sund á Fáskrúðsfjörð og var Hafþór Svanur hrókur alls fagnaðar, honum finnst sund æðislegt. Katrín og Hrafnhildur Sara komu með okkur, enn þurftu þó að vera í talsverði fjarlægð frá Hafþóri og skvettunum sem fylgja honum! :)
Á laugardaginn vorum við komin út í góða veðrið fyrir klukkan 9, fengum okkur góðan göngutúr og fórum síðan í íþróttaskólann. Fórum í meiri göngutúr og grilluðum síðan með pabba og mömmu, við erum aðeins of ákveðin í því að sumarið sé komið!


Í dag fórum við aftur í sund, að þessu sinni með Telmu Sól og Gunnu og við fórum á Eskifjörð enn það henntaði kuldastráinu mínu ekki jafn vel, hann vildi bara vera í pottinum og var alveg að sjóða mömmu sína! 

Svona dagar eru svo æðislegir, maður fær allt í einu bara alla heimsins orku þegar sólin fer að skína! :) Fyrir utan þetta dund okkar er líka búið að laga til í geymslunni aðeins og finna íbúðina svona að einhverju leyti, hún týnist almennt yfir vetrarmánuðina!
Til þess að toppa helgina algerlega fór ég líka að spila með vinkonum mínum bæði á föstudags og laugardagskvöldinu sem er með því skemmtilegasta sem ég geri!

Enn nú er kominn tími á svefn! Það virkar kannski ekki í marga daga í röð að fara að sofa á milli 3 og 4 og vera komin á fullt klukkan 8. 

Nú er bara að vona að veðrið haldist svona :) 


Þangað til næst!