sunnudagur, 16. febrúar 2014

Leirgerð á sunnudagsmorgni

Ég elska svona morgna! Venjulega þegar Hafþór Svanur vaknar þá vill hann fara fram á núll einni, enn ekki í morgun. Þá bað hann um bók og var svo eitthvað að vesenast á milli okkar uppí rúmi heillengi, að kúra og dundast með heilan stafla af bókum. Alveg æðislegt þegar hann vaknar svona hress, vanalegra að hann vakni á orginu og vilji fara beint fram ;)

Við mæðgin fórum síðan framm og dunduðum okkur við leirgerð, ég hlakka til að taka þennan líka fína leir með mér í vinnuna á morgun.


Þetta er svona leir sem er gerður í potti, hann er svo mjúkur og góður og mér finnst hann algert æði, er aðeins að prófa mig áfram með uppskrift og lýst vel á þennan. Enn það kemur betur í ljós þegar krakkarnir fara að brasa með þetta hvernig hann reynist. Ég kann mun betur við þessa tegund af leir heldur enn gamla góða trölladeigið, þó að það sé svosem alveg fínt til síns brúks.

1 bolli salt
4 bollar hveiti
1 bolli olía
2 bollar vatn
3 msk sítrónusafi

Salt, olía og hveiti sett í pott á lágan hita og hrært í.


Síðan vatn, sítrónusafi og að þessu sinni grænn matarlitur.


Ég hitaði þetta bara aðeins og hrærði vel á meðan, þangað til þetta var orðið nokkuð fín kúla. Setti þá á borðið og hnoðaði með smá hveiti, ef leirinn er mjög klístraður og blautur þarf að bæta meira hveiti. Mér hefur líka stundum fundist gott að bæta smá hveiti við ef leirinn hefur staðið lengi í dollu inní skáp án þess að vera notaður.


Á meðan ég dundaði þetta var Hafþór Svanur að leira með leirinn sem við gerðum um daginn, enn var reyndar flúinn af hólmi þegar þessi mynd var tekin.

Rétt fyrir 10 skelltum við okkur síðan í göngutúr á snjóþotunni, enda alveg frábært veður til þess! Enn nú er sennilega vissara að fara að koma litlum mönnum í ró, okkur er boðið í afmæli klukkan 3 og eins gott að menn fari að leggja sig til að vera klárir þá! :)

Þangað til næst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Guðlaug :)

er hægt að baka leirinn þannig hann harðni / loftharðnar hann - eða helst hann mjúkur?

Kær kveðja
Alexandra

Unknown sagði...

Ég hef bara ekki prófað það,, hann harðnar alveg án þess að baka hann samt, en ekkert rosalega hratt :)

Örugglega hægt að bara hann bara á lágum hita.