miðvikudagur, 17. júlí 2013

Smá saumaskapur :)

Ég hef aldrei nokkur tíman kunnað neitt með saumavél að fara, svona í sannleika sagt var ég farin að efast um að ég myndi nokkurtíman sauma neitt að ráði. Mamma er rosalega flink að sauma, og við höfum skipt þessu mjög jafnt á milli okkar. Ég prjóna og hún saumar :)
En nú eru pabbi og mamma í sumarbústað og ég rændi saumavélinni hennar mömmu og er aðeis að prófa mig áfram, það er alveg ótrúlega gaman! En ég get verið heldur fljótfær fyrir þetta held ég! Mun erfiðara að "rekja upp" í þessu án þess að það sjáist heldur en þegar ég er að prjóna! :)

Ég er byrjuð að sauma buxur á Hafþór Svan, og þær líta bara nokkuð vel út enn sem komið er, þó ég segi sjálf frá. Þær virka samt fyrir að vera á eitthvað tröllabarn en það er bara vegna þess að ég á eftir að setja stroff í mittið og skálmarnar, þá held ég að þær verði bara fínar :) En þar sem mamma er í sumarfríi í algeru símasambandi þá eru þessar buxur farnar í tímabundið frí. Þori engan vegin að sauma neitt úr þessu elskulega efni sem ég keypti mér dýrum dómi nema mamma segi mér fyrst hvað ég á að gera! En gamla settið kemur nú vonandi heim í dag þannig að ég get fljótlega haldið áfram.


Í gær kláraði ég bolakjól handa mér sem verður sennilega nokkurnvegin nothæfur, en ekkert meistaraverk og ég þarf sennilega að gæta þess að mamma sjái hann aldrei á röngunni eða fái neitt að skoða saumaskapinn náið!

En það sem mér finnst mest spennandi við saumaskapinn fram yfir prjónið er eiginlega endurvinnslan. Mér finnst svo gaman að geta notað eitthvað sem til er á heimilinu, ótrúlega mikið til af flíkum sem ég er löngu hætt að nota en væri auðveldlega hægt að breyta, já eða bara nota efnið í eitthvað annað skemmtilegt :)
Nú klæjar mig bara í puttana, sé fyrir mér að geta notað fullt af spennandi efnum úr gardínukassanum hennar ömmu til þess að gera eitthvað fínt, sem verður þá vonandi betra en þessi bolur, en einhversstaðar verður maður að byrja :)